Leikurinn er mikilvægasta námsleið barna og með honum öðlast börn færni sem þau nota alla ævi. Leikurinn er lífstjáning og gleðigjafi þar sem ímyndunaraflið ræður ferðinni og sköpunargleði getur notið sín. Í leik læra börn að tjá tilfinningar sínar og leysa vanda. Þar skapast tækifæri til að rannsaka umhverfið og örva hreyfiþroskann. Leikur er góð leið til að þjálfa félagstengsl og samskipti við aðra. Öll börn eiga að fá tækifæri til skapandi hugsunar og tjáningar í frjálsum leik þar sem starfsfólk og umhverfi mæta þörfum þeirra og bjóða upp á efni og hugmyndir sem hvetja til málræktar. Leikurinn er markmið og leið og hann tengist inn í öll námssvið leikskólans. Til að nýta hann sem virka og djúpa námsleið þarf starfsfólk að þekkja börnin, samþykkja áhuga þeirra og viðurkenna þarfir hvers og eins.