Málrækt er rauður þráður í gegnum alla leikskólagönguna. Starfsfólkið nýtir öll tækifæri sem gefast í daglegum samskiptum til að kenna ný orð og hugtök og efla málvitund barnanna. Leitað er leiða til að styrkja móðurmál barnanna og við sýnum því áhuga og virðingu. Við samþykkjum ólíkar leiðir og sköpum sameiginlega ábyrgð 
um læsi allra barna og vilja til að styrkja virkt tvítyngi. Börn eru í eðli sínu miklar félagsverur og hafa ríka þörf á að eiga í samskiptum. Þau spyrja spurninga, skiptast á skoðunum og ræða hugmyndir sínar og líðan. Þau nota ýmsar leiðir til að tjá sig en auk tungumálsins nota þau meðal annars ýmis hljóð, snertingu, látbragð, leikræna tjáningu, myndlist, tónlist og dans. Það er mikilvægt að lögð sé áhersla á góð og gefandi samskipti í leikskólanum og að færni barna í læsi í víðum skilningi sé eflt á fjölbreyttan hátt með það að markmiði að efla sjálfsmynd hvers barns og styrkja það félagslega.
 
MÁLRÆKTARMARKMIРHÓLABORGAR ERU ÞESSI:
 
•  Að allir fái að njóta sín í gefandi og uppbyggilegum samskiptum.
 
•  Að efla hlustun, máltjáningu, orðaforða, málskilning og hljóðvitund.
 
•  Að fylgst sé með því að öllum fari stöðugt fram og unnið sé með hvert barn þar sem það er statt hverju sinni.  
 
•  Að börn með annað móðurmál en íslensku þrói með sér virkt tvítyngi og öðlist þannig færni í að viðhalda og efla móðurmál sitt um leið og þau ná árangri í íslensku.
 
•  Að börnin upplifi tilgang og gildi ritmáls og læsis til gagns og gleði.
 
•  Að styðja fjölskyldur í að viðhalda og efla móðurmál barna sinna.  
 
Kennum gott með góðu